Glæsileg ferð um Andalúsíu á Spáni

5.  – 12. október 2024Lækkum verðið um kr. 20 þúsund í tvíbýli
8 dagar – 7 nætur
Fararstjóri: Ása Marin Hafsteinsdóttir

Andalúsía á sér langa sögu og borgir héraðsins bera þess merki. Þröngar götur, gamlar byggingar og einstakur arkitektúr endurspegla ríka söguna. Ekki er verra að veðrið er nánast alltaf gott á þessum slóðum. Í þessari ferð ætlum við að kynna okkur fallegar borgir og staði í Andalúsíu-héraði. Dvalið verður allan tímann í Málaga en farið í skoðunarferðir til Granada, Ronda og Gibraltar sem tilheyrir Bretlandi.

Malaga er yndisleg og heillandi stórborg, sem hefur upp á svo mikið að bjóða en undanfarin ár hefur hún verið í yfirhalningu. Hún er ein elsta borg Spánar og uppfull af menningu og andrúmslofti stórborgar, en saga hennar spannar langt aftur í tímann. Í Malaga búa um 570.000 manns. Borgin er róleg og talin örugg, mikið er af merkum minjum eins og rómverskt hringleikahús í gamla bænum, márískur kastali sem trónir yfir borginni og Pompidou safnið auk 12 annarra listasafna einkenna þessa fallegu borg. Listmálarinn Picasso fæddist í borginni og er nærveru hans alls staðar að finna í hverjum krók og kima.  Malaga er falinn gimsteinn Andalúsíu. Borgin er þekkt fyrir lágt verðlag, frábærum verslunum, auk þess sem þar er að finna aragrúa af gæða veitingastöðum og ekta Tapas börum.  Gaman er að rölta um bæinn og kíkja niður á höfn eða á ströndina Playa de la Malagueta.

Dagur 1 –  5. október 2024  laugardagur    Ísland – Malaga
Flogið til Malaga með Play flug OG650 og er brottför frá Keflavík kl. 10:00 áætluð lending í Malaga kl. 16:40 að staðartíma. Akstur frá flugvelli að hóteli tekur tæplega 30 mínútur. Gist er í 7 nætur á
4* Hótel NH Malaga. Hótelið er vel staðsett í miðbæ Malaga í göngufjarlægð við helstu staði borgarinnar eins og gamla bæinn.

Dagur 2 –  6. október 2024  sunnudagur    Gönguferð um Malaga
Eftir morgunverð kl. 10:00 röltum við saman frá hótelinu í gegnum Parque de Malaga og að Pompidou safninu. Áfram röltum við niður að strönd, síðan að nautahring borgarinnar og þaðan upp í gamla bæinn að minjum rómverska hringleikahússins þar sem virkisveggir Alcazabar kastalans sjást einnig.

Við skoðum húsið sem Pablo Picasso hinn frægi listmálari fæddist í og myndlistar-áhugafólk ætti að heimsækja Picasso safnið í Malaga og göngum þaðan að dómkirkjunni og endum svo gönguna í miðbænum þar sem verslanir og veitingastaðir eru allt um líkjandi.

Gangan er á svo gott sem jafnsléttu og er farið hægt yfir. Ekki er farið inn í nein mannvirki en gangan gefur ykkur vonandi hugmyndir um það hvernig þið viljið verja frídögunum í Malaga. Eftir gönguna er tilvalið að fá sér hádegismat, kíkja í verslanir eða á söfn áður en þið farið til baka á hótelið.

Dagur 3 –  7. október 2024  mánudagur     Skoðunarferð til Gíbraltar
Morgunverður þennan daginn verður tekinn snemma því að kl. 9:00 verður lagt af stað til Gibraltar sem er tæplega  2ja tíma akstur sjá leiðina hér.  Þegar komið er til Gibraltar er farið í minni rútur til að fara upp klettinn. Eftir það er frjáls tími í miðbænum í um 3 – 4 klst.  Þá gefst tími til að fá sér að borða og kíkja á tollfrjálsu vörurnar. 

Saga Gíbraltar nær mörg ár þúsund aftur í tímann og þar hafa meðal annars fundist merki um Neanderdalsmenn. Gíbraltar er undir yfirráðum Breta frá því breskur og hollenskur floti náði höfðanum á sitt vald árið 1704 í Spænska erfðastríðinu. Tanginn var síðan fenginn Bretum til eignar „að eilífu“ með Utrecht sáttmálanum árið 1713. Ýmsir konungar Spánar reyndu að ná höfðanum aftur en án árangurs Landsvæði Gíbraltar nær yfir 6,843 ferkílómetra svæði. Landamærin við Spán eru 1,2 kílómetrar að lengd. Bærinn La Línea de la Concepción í Cádiz-héraði liggur við landamærin Spánarmegin. Landið Spánarmegin er kallað Campo de Gibraltar („Gíbraltarsveit“). Strandlengjan við Gíbraltar er 12 kílómetrar á lengd. Gíbraltar skiptist í tvær hliðar: vestan megin er aðalbyggðin, Westside, en austan megin eru byggðirnar Sandy Bay og Catalan Bay. Gíbraltar er ekki með neinar aðskildar stjórnsýslueiningar en skiptist í sjö íbúabyggðir. Íbúar eru um 32.700.

Gíbraltar hefur nær engar náttúruauðlindir og lítið af ferskvatnsbrunnum. Þar til nýlega var regnvatni safnað í stórar vatnsþrær inni í klettinum. Tvær borholur sjá byggðinni fyrir vatni en auk þeirra eru tvær afsöltunarstöðvar sem vinna ferskvatn úr sjó.
ATH. Muna eftir að taka vegabréfið með í ferð þessa ferð

Dagur 4 –  8. október 2024  þriðjudagur   Frjáls dagur
Nú er kjörið tækifæri til að njóta sín á eigin vegum í borginni, fara í búðir eða söfn, flatmaga niðri á strönd eða bara taka því rólega við sundlaugina á hótelinu.

Dagur 5 –  9. október 2024  miðvikudagur   Skoðunarferð til Granada

Morgunverður þennan daginn verður tekinn snemma því að kl. 9:00 er ekið til Granada um 1,5 tíma akstur sjá hér. Við byrjum í Granada á að heimsækja eina af glæsilegustu og þekktustu byggingum heims, sjálfa Alhambra höllina sem reist var á 14. öld og þjónaði sem höll og vígi háttsettra Mára. Fegurð hallarinnar, sem dregur nafn sitt af arabíska orðinu „rauður kastali“, hrífur hvern þann sem hana heimsækir enda er hún á heimsminjaskrá UNESCO síðan röltum við um hallargarðana. Leiðsögnin í höllinni er á ensku en fararstjóri gengur með hópnum og er honum innan handar.

Eftir heimsókn í Alhambra keyrir rútan hópinn niður í miðbæ og gengur fararstjórinn með hópnum um bæinn, síðan er frjáls tími og gefst þá tími til að fá sér hádegisverð. Ekið til baka um eftirmiðdaginn. Granada er sögufræg borg, sérstaklega í samhengi við landvinninga Mára á Íberíuskaganum. Márar hófu valdarán sitt á skaganum árið 711, þeir voru á Spáni í margar aldir en lengst af voru þeir á suður Spáni, upp undir 800 ár. Því er engin furða að suður Spánn er uppfullur af menjum arabískrar menningar. Höllin Alhambra er einn merkilegasti minnisvarðinn um byggingarstíl Mára og dvöl þeirra á Spáni, hún gnæfir upp í hæð yfir borginni ásamt fallegum hallargörðunum (Jardines de Generalife).

Dagur  6 – 10. október 2024  fimmtudagur   Skoðunarferð til Ronda

Morgunverður þennan daginn verður tekinn snemma því að kl. 9:00 leggjum við af stað til hvíta þorpsins Ronda sjá hér. Aksturinn til Ronda tekur u.þ.b. 1 tíma og 20 mínútur.  Við röltum saman í gegnum bæinn stoppum á útsýnispöllum til að njóta náttúrunnar, sjáum gilið og göngum yfir Puente Nuevo brúna yfir í eldri hluta bæjarins þar sem m.a. dómkirkjan er.  Eftir gönguna er frjáls tími til að fá sér að borða og slaka á áður en við höldum aftur til baka til Malaga með stuttu stoppi í Setenil de las Bodegas sem er að hluta til byggð undir kletti.

Ronda er afar fallegur bær og í honum búa u.þ.b. 36.000 íbúar. Bærinn er einn þekktasti fjallabær Malaga, 100 metra há gjá klýfur bæinn í tvennt og því er ekki ólíklegt að farþegar þekki bæinn af myndum af gjánni og brúnni Puente nuevo. Einnig er nautaatshringur Ronda talinn einn af elstu og merkustu nautaatshringjum Spánar.

Dagur  7 – 11. október 2024 föstudagur  Frjáls dagur – Sameiginlegur kvöldverður
Þetta er síðasti dagurinn í ferðinni,  frjáls dagur fram að sameiginlegum kvöldverði. Nú er um að gera er að njóta þess að skoða söfn, rölta í verslanir eða liggja í sólbaði.
Dagur  8 – 12. október 2024 laugardagur           Malaga – Keflavík
Nú er komið að heimferð og verður lagt af stað út á flugvöll kl. 13:30. Brottför frá Malaga kl.17:40 með Play flugnr. OG651 í beinu flugi til Íslands. Áætluð lending í Keflavík er kl. 20:30 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Verð á mann sem er niðurgreitt í tvíbýli er  kr. 309.900
Verð á mann sem er niðurgreitt í einbýli er kr. 414.900
Staðfestingargjald er kr. 75.000 og er óafturkræft

Innifalið í verði er:

 • Flug, flugvallarskattar, 20 kg taska
 • Handfarangur 42x32x25 cm þarf að komast undir sætið fyrir framan farþegann.
 • Gisting í 7 nætur á Hotel NH Malaga með morgunverði
 • Dagsferð til Gibraltar (dagur 3)
 • Dagsferð til Granada og aðgangseyrir í Alhambra (dagur 5)
 • Dagsferð til Ronda með stoppi í  Setenil de las Bodegas  ( dagur 6)
 • Sameiginlegur kvöldverður í Malaga (dagur 7)
 • Akstur til og frá flugvelli erlendis

Íslensk fararstjórn á meðan á allri ferðinni stendur sem er hópnum innan handar og segir farþegum frá ýmsum fróðleik um sögu og menningu Andalúsíu í rútu.

Ekki innifalið í verði er:

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Kvöldverðir aðrir en 11. október.
 • Þjórfé fyrir bílstjóra og staðarleiðsögumenn
 • Forfalla- og ferðatryggingar

  Mikilvægar upplýsingar:  
 • Munið eftir gildum vegabréfum í utanlandsferðum.  
 • Forfallatrygging er ekki innifalin í staðfestingargjaldi.  
 • Ferða- og forfallatryggingar eru á eigin ábyrgð. 
 • Skatta- og gengisbreytingar gætu breytt auglýstu verði. 
 • Orlofsnefnd húsmæðra ber ekki ábyrgð á töfum eða breytingum á
  ferðaáætlun vegna ófyrirsjáanlegra  aðstæðna.
  Vísað er í almenna ferðskilmála á heimasíðu ferðaskrifstofunnar. 
 • Hafið ætíð evrópskt sjúkratryggingakort „E-111“ frá Sjúkratryggingum
  Íslands  meðferðis í utanlandsferðir.  Smellið hér til að sækja um kortið.
 • Konur sem búa í öðru sveitarfélagi geta farið í ferðir, en verða  sjálfar að sækja
  um niðurgreiðslu til orlofsnefndar í sínu umdæmi.  
 • Staðfestingargjald vegna ferða þarf að greiða innan viku eftir að þátttaka hefur
  verið samþykkt. Verði gjaldið ekki greitt innan þess tíma fellur pöntunin niður.
  Gengið skal frá fullnaðargreiðslu ferðar á viðkomandi ferðaskrifstofu, nema
  annað sé tekið fram. 

  Vinsamlegast boðið forföll eins skjótt og auðið er. Endurgreiðslur eru skv. almennum ferðaskilmálum á heimsíðu Heimsferða

Varðandi aðra skilmála vísast í “almenna ferðaskilmála” á heimasíðu Heimsferða  Ferðaskilmálar

Athugið sérstaklega:
Í ferðum á vegum Húsmæðraorlofsins þurfa konur að vera færar um að geta komist leiðar sinnar óstuddar, því alltaf þarf að ganga eitthvað í skoðunarferðum en gönguleiðir eru oftast ekki mikið á fótinn né mjög langar.

Bókaðu þig með því að smella hér

___________________________________________________________________