Glæsileg ferð um Portúgal  10. – 18. sept. 2023

9 dagar – 8 nætur
Fararstjóri: Sigrún Knútsdóttir

Í þessari 9 daga ferð til Portúgals kynnumst við mörgum áhugaverðum stöðum Portúgals sem margir eru á heimsminjaskrá UNESCO, njótum náttúrufegurðar og skoðum vínakra. Gist verður á góðum fjögurra stjörnu hótelum, 4 nætur í Porto sem var vinningshafi ársins 2022 hjá World Travel Awards hátíðinni fyrir Evrópu og hlaut verðlaunaheiðurinn „Leiðandi borgaráfangastaður Evrópu“ og síðan gistum við 4 nætur í Lissabon sem er höfuðborg Portúgals og vestasta höfuðborg á meginlandi Evrópu.

Porto

10. – 14. september
4 nætur 4 dagar

Porto er önnur stærsta borg Portúgals og dregur landið nafn sitt af henni. Hér mætast mikil saga, falleg byggingarlist, blómleg menning, ljúffengur matur og mögnuð upplifun. Borgin stendur við Douro fljótið sem er 897 km langt og á upptök sín á Spáni.  Porto er mjög hæðótt og margar byggingarnar við fljótið eru byggðar beint inn í klettana. Porto hefur mestan sjarma allra þeirra bæja sem liggja við Douro fljótið en unnt er að rölta meðfram fljótinu eða upplifa borgina með því að sigla á því og upplifa þannig byggingarlistina, ótrúlegt landslagið og stórkostlegar brýr sem liggja yfir fljótið. Gamli bærinn í Porto er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar eru göturnar þröngar og brattar, byggingarnar litríkar og fallegar og vekja upp þá tilfinningu að maður hafi ferðast aftur í tímann. 

Porto er ekki síður nútímaleg borg en söguleg. Nýrri hverfin eru full af einstöku andrúmslofti, lífi og mikilli grósku. Við árbakkann standa veitingahús í röðum og við torgið er mikið líf og fjör en þar eru fjöldi veitingastaða. Þá eru í borginni margar merkilegar byggingar á borð við Sao Bento járnbrautarstöðina, Bolsa höllina og dómkirkjuna en þaðan er frábært útsýni yfir borgina. Frá Dom Luis brúnni er einnig stórkostlegt útsýni yfir Porto og yfir til systurborgarinnar Vila Nova de Gaia handan árinnar, þar sem Portvínshúsin standa í röðum.

Dagur 1 – 10. september 2023  sunnudagur    Ísland – Porto
Flogið er til Porto með Play.  Brottför er áætluð frá Keflavík kl. 14:50 og er gott að mæta 2,5 tímum fyrir brottför. Áætluð lending í Porto kl. 19:50 að staðartíma. Ekið með rútu frá flugvelli að hótelinu okkar sem tekur u.þ.b. 30 mínútur. Gist verður í 4 nætur á Hotel Carris Porto Ribeira sem er 4* hótel og  er staðsett í Porto Ribeira hverfinu í sögulegri byggingu með útsýni yfir Douro fljótið í hjarta gamla bæjarins með öllum þeim sjarma sem honum fylgir.

Á veitingastað hótelsins er ríkulegt morgunverðarhlaðborð á morgnana en á kvöldin býður veitingastaðurinn upp á La Carte og sérhæfir hann sig í portúgalskri matargerð.

Hótelið hefur nýlega verið endurnýjað og býður upp á  fallega innréttuð herbergi, öll með loftkælingu, sjónvarpi, síma, öryggishólfi og á baðherbergi er hárþurrka. Unnt er að tengjast þráðlausu Interneti (Wi-Fi) á sameiginlegum svæðum hótelsins og í herbergjum. Einnig er líkamsræktaraðstaða.

Dagur 2 – 11. september 2023 mánudagur Skoðunarferð um Porto-hálfsdagsferð
Í skoðunarferðinni ökum við og göngum um gamla bæinn í Porto og sjáum það markverðasta. Við sjáum m.a. dómkirkjuna frá 12. öld og skoðum Sao Bento járnbrautar-stöðina sem er fagurlega skreytt með myndum um sögu Portúgal gerðum úr bláum og hvítum flísum (azulejos) sem eru dæmigerð fyrir skreytingu húsa í Portúgal. Við sjáum einnig Clérigos turninn sem er frá 18. öld og er eitt helsta kennileiti borgarinnar, Camo kirkjuna, Lello bókabúðina sem talin er ein fallegasta bókabúð í heimi, Bolsa höllina sem var áður kauphöllin í Porto og hina frægu Sao Francisco kirkju sem er ein af fallegustu kirkjum Evrópu, en kirkjan er þakin gulli að innan. Ekki verður farið inn í þessar byggingar. Ferðin endar á kynningu á einum af hinum þekktu púrtvínshúsum í Vila Nova de Gaia.

Dagur 3 – 12. september 2023 þriðjudagur   Skoðunarferð Douro dalurinn – heilsdagsferð
Skoðunarferð um Douro dalinn, en þar er um að ræða eitt elsta og fallegasta vínframleiðslusvæði í heiminum. Douro dalurinn er á heimsminjaskrá UNESCO. Á þessu svæði eru vínviðirnir ræktaðir í hlíðunum sem liggja niður að Douro fljótinu. Þar förum við í klukkustundar siglingu á fljótinu. Við skoðum einnig fallegu lestarstöðina í Pinhao sem er fagurlega skreytt með azulejos myndum. Þaðan förum við í heimsókn á vínakurinn í Quinta da Pacheca, skoðum svæðið og kynnumst starfseminni. Við fáum okkur svo hádegismat saman og fáum að smakka á tveimur vínum sem vínbændurnir í Quinta da Pacheca framleiða.
Dagur 4 – 13. september 2023  miðvikudagur – Frjáls dagur
Síðasti dagurinn í  Porto. Frjáls dagur og er um að gera að njóta hans í þessari dásamlegu borg, skoða söfn, fara í verslanir o.sv.fr.   
Dagur 5 – 14. September 2023 fimmtudagur  Porto – Lissabon

Haldið af stað frá hótelinu í Porto eftir morgunverð og ekið til Lissabon (um 4 tíma akstur) og munum við stoppa á einum eða tveimur stöðum á leiðinni. Hér má sjá leiðina sem við munum aka til Lissabon

Lissabon    

14. – 18. september 2023

Lissabon er stærsta borgin í Portúgal  og jafnframt höfuðborgin. Hún er einnig vestasta höfuðborg Evrópu. Borgin á sér mikla sögu og menningu en er að sama skapi mjög nútímaleg borg. Lissabon á það sameiginlegt með Róm, Istanbúl og San Francisco að vera byggð á sjö hæðum og fer það ekki fram hjá þeim sem hyggur á göngur milli borgarhlutanna. Útsýni frá hæðunum er tilkomumikið og það ásamt byggingalist, menningu, sögu og veðursæld  gerir borgina eina af eftirsóttustu borgum Evrópu heim að sækja. Gömul og falleg hverfi setja sinn svip á borgina. Má þar á meðal nefna Baixa, Alfama, Chiado,  Bairro Alto sem er fornt og töfrandi hverfi sem er vígi næturlífs Lissabon. Á svæðinu eru yfir 250 mismunandi barir og Belém en öll eiga þau heillandi sögu, hvert á sinn hátt. Þar er auðvelt að gleyma sér á rölti um hin þröngu steinlögðu stræti, heimsækja söfn, kaffihús og virða fyrir sér mannlífið.

Þeir sem vilja skoða meira af borginni geta farið með kláfi upp og niður hæstu brekkurnar. Margar merkilegar byggingar eru við hvert fótmál. Kastali heilags Georgs (Castelo de Sao Jorge) er staðsettur í Alfama með frábæru útsýni yfir borgina. Í Belém hverfinu eru  Belém-turninn (Torre de Belém) og Jerónimo-klaustrið (Mosteiro dos Jerónimos) en báðar þessar glæsilegu byggingar frá 16. öld eru á heimsminjaskrá UNESCO. Hér er einnig  minnisvarði um landafundina sem við munum skoða. Lissabon er mjög stór borg og að meðtöldum úthverfum telur borgin rúma þúsund ferkílómetra, sem er um það bil þreföld stærð Reykjavíkur.
Aðalverslunarmiðstöðvarnar eru Colombo ─ ein sú stærsta í Evrópu með yfir 400 verslanir og Vasco da Gama verslunarmiðstöðin í Þjóðagarðinum, Parque das Nacoas.  Hótelið okkar er ekki langt frá verslunargötum borgarinnar.
Veitingastaðir og næturlíf: Matarmenningin er mikil í borginni og veitingastaðir oft reknir af fjölskyldum sem bjóða rétt dagsins eða „Pratos do dia“ fyrir sanngjarnt verð. Hvert landsvæði Portúgals hefur sína sérrétti sem oftast innihalda kjöt eða fisk. Saltfiskur eða bacalhau á portúgölsku er sérstaklega vinsæll í landinu enda sagt að Portúgalar kunni meira en 365 leiðir til að elda saltfisk en „Bacalhau à Brás“ og „Bacalhau à Gomes de Sá“ eru vinsælustu aðferðirnar ásamt „Bacalhau de Porto“. Einnig er mikið um sætindi, og ber þá helst að nefna hið fræga „Pastéis de Belém“ sem er nokkurs konar eggjatart-eftirréttur en rétturinn er afar vinsæll á samnefndum stað í Belem-hverfinu. 

Portúgalar hafa einnig þróað sína eigin skyndibitamenningu en rétturinn „Francesinha“ er þar vinsælastur og kemur upphaflega frá Porto, gerður úr brauði, pylsum, kjöti, osti og sósu sem m.a. samanstendur af viskí og bjór en rétturinn er oftast nær borinn fram með frönskum kartöflum.
Áhugaverð söfn í Lissabon:Chiado-safnið (Museu do Chiado) ─ fremsta nýlistasafn Portúgals er kennt við Chiado-hverfið. Carmo-klausturleifarnar (Ruínas do Convento do Carmo) ─ rústir frá jarðskjálftatíma borgarinnar. Flísasafnið (Museu do Azulejo)

 Í Lissabon gistum við á 4* HOTEL MUNDIALsem er þægilega staðsett  nálægt helstu verslunum og veitingastöðum borgarinnar. Herbergin eru  í ljósum þægilegum litum innréttuð í einföldum, ferskum stíl. Unnt er að tengjast þráðlausu Interneti (Wi-Fi) á sameiginlegum svæðum hótelsins og í herbergjum. Öll herbergin eru með loftkælingu, sjónvarpi, síma, öryggishólfi og á baðherbergi er hárþurrka. Á hótelinu er veitingastaður,  vel staðsett og falleg verönd á þakinu með stórkostlegu útsýni og góðum bar og svo er önnur verönd á jarðhæð

Dagur 6 – 15. September 2023 föstudagur –  Skoðunarferð um Lissabon – hálfsdagsferð

Í borgarferðinni verður ekið á milli helstu kennileita Lissabon, m.a. sjáum við Belém turninn og minnisvarðann um landafundina sem er 52 metra hár minnisvarði og svo  skoðum Jeronimos klaustrið í Belém hverfinu. Í Bélém hverfinu er miðstöð lista og menningar er hér en svæðið samanstendur af þyrpingu húsa þar sem menning og allt henni tengt er í forgrunni.

Dagur 7 – 16. september 2023 laugardagur Frjáls dagur – Sameiginlegur kvöldverður
Kjörið tækifæri til að njóta sín á eigin vegum í borginni, fara í búðir eða söfn eða bara að njóta lífsins. Um kvöldið verður sameiginlegur kvöldverður.

Dagur 8 – 17. september 2023 sunnudagur – Fjallaþorpið Sintra og strandþorpið Cascais 

Sintra eru einn fallegasti og sögufrægasti staður Portúgal. Sintra  er fyrsti staður Evrópu sem sett var á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Saga Sintra og þau menningarlegu verðmæti sem finna má í bænum eru ógleymanleg þeim sem ganga þar um í fyrsta sinn.  Bærinn hefur að geyma lítil þröng stræti umlukin fallegum byggingum og þeir sem hann heimsækja hafa oftar en ekki vitnað í Byron lávarð, skáldið víðfræga, sem kallaði Sintra Eden á jörð. Rómantískara andrúmsloft verður vart fundið. Náttúrufegurð Sintra er einstök og tala heimamenn um Sintra sem grænasta og gróðursælasta stað Portúgal.

Bærinn Sintra byggðist upp vegna nálægðar sinnar við Þjóðarhöllina (Palace National) sem stendur í miðbænum og ergreinilegt kennileiti með geysistórum reykháfum sínum. Í upphafi var höllin byggð á tímum mára á. 11. öld fyrir soldánana sem dvöldu hér a sumrin í tempruðu loftslaginu og var hún síðan sumarhöll konunganna þar til snemma á 19. öld. Höllin er nú aðallega i gotneskum og manuelískum stíl frá 15. og 16. öld en enn sjást leifar af arabískum stíl í hluta byggingarinnar.
Í útjaðri bæjarins er ein fallegasta og mikilvægasta sköpun rómantíkurinnar, Pena höllin sem var reist á á 19. öld. Hér blandast saman ýmsir byggingastílar, allt frá arabískum stíl, gotneskum, endurreisnar og rómantískum stíl.  Höllin varð sumarhöll konunganna þar til konungsveldið lagðist af 1910.  Höllin er á heimsminjaskrá UNESCO og er eitt af 7 undrum Portúgal. Útsýni frá höllinni er einstaklega fallegt og hallargarðurinn einn sá fallegasti í Portúgal.
Dagur 9 – 18. september 2023 mánudagur – Heimferð
Nú er komið að kveðjustundog haldið heim. Tékka þarf út um hádegi en brottför frá hóteli er
kl. 17:30.  Það er því frjáls tími til þess tíma og hægt að fá sér hádegisverð eða rölta um borgina. Brottför flugsins frá Lissabon er áætlað kl. 21:45 og áætluð lending í Keflavík er kl. 01:30 ( eftir miðnætti 19. september).

Verð í tvíbýli niðurgreitt kr. 279.900
Aukagjald fyrir einbýli kr. 135.000

Innifalið i verði:
Flug og flugvallarskattar
Innritaður farangur allt að 20 kg. Handfarangur taska sem má vera 42x32x25 cm að stærð.
Gisting í 4 nætur í Porto á 4* hóteli í tvíbýli með morgunverði
Gisting í 4 nætur í Lissabon á 4* hóteli í tvíbýli með morgunverði.
Rúta til og frá flugvelli erlendis og milli Porto og Lissabon
Allar kynnisferðir sem taldar eru upp í dagskrá
1 kvöldverður
1 hádegisverður
Íslensk fararstjórn.
Handfarangur er taska sem má vera 42x32x25 cm að stærð. Athugaðu að taskan þarf að passa undir sætið fyrir framan. Ekki venjuleg handfarangurstaska

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Hádegisverðir aðrir en í ferðalýsingu
  • Þjórfé.
  • ATH. Gistináttaskattur er ekki innifalin í verði og er hann € 2 per nótt per mann

Varðandi aðra skilmála vísast í “almenna ferðaskilmála” á heimasíðu Heimsferða Ferðaskilmálar

Hægt er að sækja um HÉR