Íslandsferð – Nokkrar perlur Vestfjarða

25. – 27. ágúst 2023 – 3 dagar 2 nætur

Vestfirðir eru tiltölulega strjálbýlir. Byggðarkjarnar eru nokkrir, en flestir fámennir. Bændabýli eru fá og fækkar enn þá. Hvergi annars staðar á landinu fóru fleiri þorp og bændabýli í eyði á 20. öldinni. Landslag er hálent og láglendi takmarkað, stundum aðeins mjóar ræmur með fjörðum fram. Sums staðar finnst jarðhiti. Atvinnulífið er einhæft og ótryggt og byggist að langmestu á fiskveiðum og -verkun. Landbúnaður er á hverfanda hveli. Ferðaþjónusta á sér mikla möguleika þar og hefur hún að aukast mikið á síðustu árum. Við ætlum að heimsækja nokkrar perlur Vestfjarða

DAGSKRÁ FERÐARINNAR:

25.08.2023 föstudagur    Reykjavík – Ísafjörður – Dynjandi – Þingeyri – Leikhús
Flogið til Ísafjarðar snemma morguns og lent á Ísafirði um kl. 08:30. Ekið að hótelinu og töskur settar í geymslu.  Kl. 10:00 er lagt af stað frá hóteli og ekið að Dynjanda, þar verður stoppað í u.þ.b. 1 klst. Síðan verður ekið að Hrafnseyri og safn Jóns Sigurðssonar skoðað.  Þá er ekið til Þingeyrar þar sem við stoppum og skoðum Galleríið Koltra. Handverkshópurinn Koltra var stofnaður 1995 og er því með elstu handverkshópum á Vestfjörðum. Koltra er staðsett á Þingeyri og dregur nafn sitt af Kolturshorni sem sést mjög vel í Haukadal í Dýrafirði. Ekið er í Haukadal þar sem við fáum okkur hádegismat og förum á leiksýningu hjá Komedíu- leikhúsinu.  Eftir sýninguna er ekið til Ísafjarðar á hótelið okkar.  Gist verður á Hótel Ísafirði næstu 2 nætur og er kvöldverður á hótelinu um kvöldið. 

26.08.2023 laugardagur  Bátsferð að Hesteyri – Kvöldverður í Tjöruhúsinu
Tökum því rólega fyrir hádegi, leggjum svo af stað kl. 13:00 frá Sundahöfn í bátsferð frá Ísafirði að Hesteyri og til baka.  Á Hesteyri verður ganga með leiðsögn, kaffi og pönnukökur í Gamla Læknishúsinu. Heimsókn á Hesteyri er frábær upplifun fyrir alla og sérstaklega fyrir þá sem vilja koma og sjá og heimsækja eitt best geymda leyndarmál Vestfjarða þar sem tíminn stendur í stað. Húsin eru frá því um aldamótin 1800/1900 og hafa flest staðið þar óbreytt frá því um miðja síðustu öld eða um 1952 þegar síðustu ábúendur Hesteyrar fluttu á brott.  Um kvöldið er kvöldverður í Tjöruhúsinu á Ísafirði sem er nafntogað fyrir góða fiskrétti og vinalegt andrúmsloft í einstöku húsi. Tjöruhúsið varð til árið 2004 þegar hjónin Magnús Hauksson og Ragnheiður Halldórsdóttir hófu þar veitingarekstur. Ísafjarðarbær bað þau um að hefja kaffisölu í friðuðu húsinu, sem byggt var 1781 og er hluti af einni elstu húsaþyrpingu landsins.

27.08.2023 sunnudagur  Ósvör-Bolungarvík-Bolafjall – Skálavík

Tökum því rólega fyrir hádegi en kl. 13:00 er ekið að Sjóminjasafninu Ósvör og það skoðað, síðan er ekið til Bolungarvíkur og upp á Bolafjall en talað er um að hægt sé að sjá til Grænlands í góðu veðri frá fjallinu.  Þá er ekið til Skálavíkur sem er næsta vík vestan við Bolungarvík en þar var byggð allt til fimmta áratugar síðustu aldar. Núna er sumarbústaðaland í víkinni og oft mikið fjör.  Ekið aftur til Ísafjarðar og beint út á flugvöll og flogið til Reykjavíkur kl. 18:40

Niðurgreitt verð í tvíbýli
: kr. 104.000
Niðurgreitt verð í einbýli: kr. 122.400

Innifalið:
Flug: Reykjavík – Ísafjörður – Reykjavík
Gisting í 2 nætur í tvíbýli ásamt morgunverði
1 hádegisverður á föstudegi
2 kvöldverðir
Leikhús
Sigling að Hesteyri
Aðgangseyrir í safnið í Ósvör
Allar rútuferðir sem koma fram í ferðalýsingu
Íslensk fararstjórn

SMELLTU HÉR TIL AÐ SÆKJA UM FERÐINA


MYNDIR