KRÓATÍSKAR STRENDUR & ALPAFJÖLL

Port town Rovinj (Rovigno), Croatia

5. – 12. október 2022 8 dagar, 7 nætur 1 nótt Abtenau| 5 nætur Rovinj | 1 nótt Salzburg
Fararstjórn: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ferðalýsing:
Óviðjafnanleg náttúrufegurð, menning og slökun einkenna þessa skemmtilegu ferð sem hefst í bænum Abtenau í Austurríki. Þá tekur listamannabærinn Rovinj í Króatíu á móti okkur með suðrænum blæ en á leiðinni þangað verður stoppað við Bled vatnið þar sem náttúrufegurðin lætur engan ósnortinn. Við heimsækjum hinn einstaklega töfrandi bæ Poreč, einn elsta bæ Istríastrandarinnar, en þar er m.a. að finna hina áhugaverðu basilíku sem kennd er við himnaför Maríu. Basilíkan sem er frá 6. öld er varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Á leið okkar til Poreč verður áð hjá Limski Kanal og endum við síðan þennan skemmtilega dag á að sækja vínbónda heim í bænum Pazin þar sem tekið verður á móti okkur með mat, drykk og skemmtilegheitum að hætti Istríubúa.Við förum í dásamlega siglingu út í eyjuna Brijuni þar sem við kynnumst nýrri hlið á Tító, fyrrum leiðtoga Júgóslavíu. En í bænum Rovinj njótum við þess að eiga góðan dekurdag á eigin vegum. Trompum þessa glæsilegu ferð á að aka til undirfögru Salzburg, hinnar miklu tónlistarborgar sem er ein af perlum landsins og gistum þar síðustu nóttina.
5. október 2022| Flug til München & Abtenau í Austurríki
Brottför frá Keflavík kl. 7:20 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin falleg leið um Alpana til fagra bæjarins Abtenau í Austurríki þar sem gist verður fyrstu nóttina. Akstur ca. 216km
6. október 2022 | Bled & Rovinj í Króatíu
Nú kveðjum við Abtenau eftir góðan morgunverð. Á leiðinni ti  l Króatíu verður áð við Bled vatni í Slóveníu sem er með fegurstu perlum Alpanna. Hér er upplagt að fá sér hressingu og kanna líf bæjarbúa. Nú er stefnan sett á Króatíu en þar tekur listamannabærinn Rovinj við Adríahafið á móti okkur með sínum suðræna blæ. Við gistum í fimm nætur á góðu hóteli við ströndina, með inni- og útisundlaug, líkamsrækt, heilsulind og fallegum garði. Akstur ca. 423km
7. október 2022 | Gönguferð & frjáls tími
Umhverfið er dásamlegt og við njótum þess á skemmtilegri göngu frá hótelinu, með ströndinni og inn í miðbæ Rovinj sem er svo sannarlega litríkur bær og iðar af mannlífi. Gengið verður upp að barokkkirkju heilagrar Euphemíu en þaðan er glæsilegt útsýni yfir eyjarnar og gamla bæinn. Úti fyrir Rovinj eru 22 eyjur, stærst þeirra er eyjan Sveta Katharina og sést hún vel frá gamla bænum. Einnig munum við halda niður listamannagötuna og um elsta hluta bæjarins. Eftir hádegi getur hver og ein ráðstafað tíma sínum að vild og skoðað bæinn betur eða varið honum í slökun og huggulegheit á hótelinu.
8. október | Limski Kanal, Poreč & Pazin Skemmtilegur dagur í Króatíu sem byrjar á því að aka fagra leið um Istríaskagann. Á leiðinni verður stoppað fyrir ofan Limski Kanal en þar þrengir fjörðinn svo mjög að hann minnir heldur á skurð. Bærinn Poreč, sem er einn sá elsti við ströndina, tekur á móti okkur í allri sinni dýrð. Yndislegur bær sem skartar marmaralögðum götum og fögrum byggingum. Þar er að finna áhugaverða basilíku sem kennd er við himnaför Maríu. Hún er frá 6. öld og var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Auðvelt er að finna skemmtilegar verslanir og má þar nefna fjölmargar skartgripaverslanir. Eftir góðan tíma þar verður ekið til Pazin þar sem vínbóndi verður sóttur heim og við snæðum léttan hádegisverð og upplifum skemmtilegheit að hætti Istríabúa.
9. október 2022 | Sigling til eyjunnar Brijuni & skoðunarferð í smálest
Nú verður farið í skemmtilega siglingu út í eyjuna Veli Brijuni, sem er stærsta eyja Brijuni eyjaklasans úti fyrir Istríaströndinni. Eyjaklasinn samanstendur af 14 eyjum en þar er ótrúleg náttúrufegurð og gróðursæld. Tító, einræðisherra Júgóslavíu, fundaði hér á árum áður með valdamestu kommúnistaleiðtogum heims og þá var það ekki á færi margra að vera boðið á þennan eðalstað. Sjálfur dvaldi hann oft og tíðum hér með merka gesti víðsvegar að úr heiminum. Upphafið að fjölskrúðugu dýralífi eyjunnar er frá tímum Tító en m.a. má finna muflon sauðfé, sebrahesta, lamadýr og fíla svo eitthvað sé nefnt. Eyjan var opnuð almenningi árið 1983 eftir dauða Títós. Við höldum í fróðlega skoðunarferð um eyjuna en m.a. má sjá mjög áhugavert myndasafn frá tíma Títós í einni villu eyjunnar.
10. október 2022 | Dekurdagur og rólegheit í Rovinj
Í dag verður dekurdagur og rólegheit í Rovinj. Upplagt er að fara í göngu með ströndinni og kanna betur líf bæjarbúa. Einnig eru í boði töfrandi siglingar frá höfninni í Rovinj, m.a. inn í Limski Kanal eða fara í stutta siglingu um Rovinj
11. október 2022 | Tónlistarborgin Salzburg
Nú kveðjum við þennan dásamlega bæ eftir góðan morgunverð og ökum til Austurríkis til hinnar undurfögru Salzburg sem þekktust er sem fæðingarborg Mozart en jafnframt fyrir mikilfenglegar byggingar í barokkstíl. Við röltum inn í borgina frá Mirabellgarðinum og göngum eftir Getreidegasse sem er m eð elstu og þekktustu götum borgarinnar en þar má finna mjög áhugavert safn um Mozart. Á góðum degi er gaman að koma upp í kastalann Hohensalzburg en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiður eða Sound of Music tekinn upp. Einstök sýn er þaðan yfir borgina, Salzburgerland og stórfenglegt umhverfi Alpanna í kring sem eru aðdráttarafl fjölda ferðamanna ár hvert. Hér verður gefin frjáls tími þar til við förum á hótelið í miðborginni þar sem gist verður síðustu nóttina. Akstur ca. 468km
12. október 2022 | Heimferð frá München
Nú er komið að heimferð eftir þessa glæsilegu og skemmtilegu ferð. Ekið verður út á flugvöllinn í München, akstur ca. 158km brottför þaðan er kl. 14:05 og áætluð lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Áætlað verð á mann miðað við tvíbýli: kr. 179.600*
Áætlað
verð fyrir einsmanns herbergi: kr. 215.400*

Innifalið:

 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Léttur hádegisverður í Pazin.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Aðgangur inn í basilíkuna í Poreč ca € 8.
 • Sigling út í Brijuni eyju og smálest ca € 50.

*Verð miðast við gengi og eldsneytisverð 29.03.2022 og 40 manna hóp. Varðandi aðra skilmála vísast í “almenna ferðaskilmála” á heimasíðu Bændaferða Ferðaskilmálar

Umsóknarfrestur er til 6. maí n.k.

Hægt er að sækja um hér