Aðventuferð til Mainz og Rüdesheim við Rín

27. nóvember – 1. desember 2025
5 dagar – 4 nætur Íslenskur fararstjóri

Aðventuferðin í ár er að þessu sinni til borgarinnar Mainz sem stendur við Rínarfljótið. Mainz er höfuðborg þýska sambandslandsins Rínarland-Pfalz og oft kölluð Gutenbergerborgin og er jafnframt stærsta borg sambandslandsins með ca. 225 þús íbúa (31.12.2025). Gegnt Mainz er borgin Wiesbaden sem er í sambandsríkinu Hessen og er heldur stærri en Mainz. Mainz er háskólaborg, biskupsetur og hafa margar sjónvarpsstöðvar þar aðsetur. Borgin hefur upp á margt að bjóða og skartar miðbærinn fallegum jólamarkaði sem á sér langa sögu. Við markaðstorgið stendur hin fallega St. Stephans dómkirkjan með sínum einstaklega fallegu, bláu glergluggum eftir listamanninn Chagall. Boðið verður upp á stutta bæjarferð um Mainz og eftir það er upplagt að njóta aðventustemmningarinnar, kíkja í verslanir eða ylja sér við jólaglögg. Þá verður boðið upp á hálfsdagsferð til Rüdesheim sem liggur við fljótið Rín og munum við m.a. skoða jólamarkað þjóðanna.

Ferðalýsing:
27. nóvember 2025 fimmtudagur – Flug til Frankfurt og ekið til Mainz

Brottför frá Keflavík kl. 07:25 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför.
Lending í Frankfurt kl. 12:05 að staðartíma. Eftir að allar hafa fengið töskurnar söfnumst við saman í komusalnum og göngum saman að rútunni sem ekur okkur til Mainz, á hótelið okkar IntercityHotel Mainz og gistum við þar í 4 nætur. Eftir að allir hafa komið sér fyrir býður fararstjórinn í stutta göngu til að átta okkur á aðstæðum nálægt hótelinu og jafnvel verður gengið inn á aðaljólamarkað borgarinnar og er þá auðvitað tilvalið að smakka Glühwein eða fá sér ristaðar jólamöndlur eða annað sem er í boði á jólamarkaðnum. Sjá hér.

28. nóvember 2025 föstudagur – Gönguferð um Mainz og frjáls tími

Eftir morgunmat eða kl. 10 förum við í u.þ.b. tveggja tíma gönguferð með fararstjóra um þessa fallegu borg. Við munum skoða helstu kennileiti borgarinnar m.a. St. Stephans dómkirkjuna sem er yfir 1000 ára gömul með sínum einstaklega fallegu og frægu bláu gluggum eftir hinn fræga listamann Marc Chagall. Við skoðum helstu staði miðbæjarins og endum gönguna á jólamarkaðnum. Eftir gönguferðina er frjáls tími og er gaman að rölta um götur borgarinnar, fara á kaffihús og á skemmtilega jólamarkaði. Það er einnig gaman að rölta í verslanir í Mainz og gott að versla þar.

29. nóvember 2025 laugardagur – Frjáls dagur en um kvöldið er Jólakvöldsigling á Rín

Nú er frjáls dagur og upplagt að skoða borgina á eigin vegum og njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða. Kíkja í verslanir borgarinnar sem eru fjölmargar og heimsækja jólamarkaðinn. Um kvöldið er Jólakvöldsigling með öllu inniföldu. Í hátíðlegri jólastemningu erum við hjartanlega velkomnar um borð í fallega skipið MS Godesburg í Mainz. Það er alltaf skemmtilegt að eyða sérstöku kvöldi með vinum á vatninu á aðventunni og njóta af hjartans lyst sem hluti af kvöldferðum skipsins okkar með öllu inniföldu. Í 2,5 tíma bátsferðinni munum við heillast af víðáttumiklu útsýni yfir Mainz og Wiesbaden sem er upplýstar fyrir jólin. Eftir að hafa snætt ríkulegan disk af forréttum getum við valið um aðalrétti og eftirrétt af hlaðborðinu. Drykkir eru bornir fram við borðið – allt frá rauðvíni, hvítvíni og rósavíni til bjórs og gosdrykkja, allt innifalið í verðinu. Sjá nánar með því að smella hér.

30. nóvember 2025 sunnudagur – Hálfsdagsferð til Rüdesheim

Í dag förum við í hálfsdagsferð til Rüdesheim sem er afar vinsæll ferðamannabær við ána Rín. Í hjarta bæjarins er hinn skemmtilegi „Jólamarkaður þjóðanna”, þar sem hægt er að kaupa ýmsa fallega gjafavörur og skoða hvernig handverk frá hinum ýmsu þjóðum er unnið. Þá er alltaf gaman að ylja sér við bolla af „Glühwein” á meðan gengið er á milli jólabásanna en ekki er síður gaman að fara inn á kaffihús og fá sér Rüdesheimer kaffi sem er heitur drykkur með Brandy og þeyttum rjóma. Afbrigðið var búið til árið 1957 af Hans Karl Adams fyrir Asbach, framleiðanda samnefnds Brandys. Þá er möguleiki að kaupa sér sérstakan bolla sem er framleiddur sérstaklega fyrir þennan drykk. Allur miðbærinn er skreyttur jólaljósum og gaman að rölta um og njóta jólastemningarinnar til fulls.

1. desember 2025 – mánudagur Heimflug frá Frankfurt til Keflavíkur

Nú kveðjum við Mainz eftir morgunverð á hótelinu en þá verður lagt af stað út á flugvöll til Frankfurt og flogið heim kl. 13:05. Áætluð lending í Keflavík er kl. 15:55 að staðartíma.

VERÐ
Verð niðurgreitt á mann kr. 155.000 í tvíbýli
Verð niðurgreitt á mann kr. 194.000 í einbýli

Staðfestingargjaldið er kr. 40.000 á mann og er óafturkræft

Lokagreiðsla er síðan 6-8 vikum fyrir brottför
Hægt er að nota vildarpunkta upp í staðfestingargjald eða lokagreiðslu.

Gjafabréf.
Inneignir hjá Icelandair eða stéttafélags gjafabréf er hægt að nota upp í ferðina.

Innifalið í verði er:
Flug með Icelandair til Frankfurt
Gisting í 4 nætur á 4* Hóteli með morgunverði
Akstur til og frá flugvelli erlendis
Jólasigling með kvöldverði og drykkjum á Rín og akstur til og frá skipi að hóteli
Hálfsdagsferð til Rüdesheim
Íslensk fararstjórn

Ekki innifalið í verði er:
Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
Hádegisverðir.
Kvöldverðir aðrir en 29. nóvember.
Þjórfé til staðarleiðsögumanns og á skipi
Forfalla- og ferðatryggingar

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn, ef að einhverjar óvæntar aðstæður koma upp.

Athugið sérstaklega:
Í ferðum á vegum Húsmæðraorlofsins þurfa konur að vera færar um að geta komist leiðar sinnar óstuddar, því alltaf þarf að ganga eitthvað í skoðunarferðum en gönguleiðir eru oftast ekki mikið á fótinn né mjög langar. Konur úr öðrum umdæmum en þessum fjórum komast aðeins með ef að ekki er uppbókað í ferðina.

Mikilvægar upplýsingar:
Munið eftir gildum vegabréfum í utanlandsferðum.
Forfallatrygging er ekki innifalin í staðfestingargjaldi.
Ferða- og forfallatryggingar eru á eigin ábyrgð.
Skatta- og gengisbreytingar gætu breytt auglýstu verði.
Orlofsnefnd húsmæðra ber ekki ábyrgð á töfum eða breytingum á
ferðaáætlun vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna.
Vísað er í almenna ferðskilmála á heimasíðu ferðaskrifstofunnar.
Hafið ætíð evrópskt sjúkratryggingakort „E-111“ frá Sjúkratryggingum
Íslands meðferðis í utanlandsferðir. Smellið hér til að sækja um kortið.
Konur sem búa í öðru sveitarfélagi geta farið í ferðir, en verða sjálfar að sækja
um niðurgreiðslu til orlofsnefndar í sínu umdæmi.
Staðfestingargjald vegna ferða þarf að greiða innan viku eftir að þátttaka hefur
verið samþykkt. Verði gjaldið ekki greitt innan þess tíma fellur pöntunin niður.
Gengið skal frá fullnaðargreiðslu ferðar á viðkomandi ferðaskrifstofu 6 – 8 vikum fyrir brottför,
nema annað sé tekið fram.

Vinsamlegast boðið forföll eins skjótt og auðið er með tölvpósti orlofgk@gmail.com.
Endurgreiðslur eru skv. almennum ferðaskilmálum á heimasíðu Vita.is.

Varðandi aðra skilmála vísast í “almenna ferðaskilmála” á heimasíðu Vita Ferðaskilmálar

Hægt er að bóka sig með því að smella hér