Ása María er menntaður þýskukennari og leiðsögumaður. Hún starfaði í mörg ár sem menntaskólakennari, en færði sig smám saman yfir í ferðaþjónustuna. Hún hefur unnið í fjölda ára við fararstjórn með Íslendinga víða um heim og við leiðsögn með þýsku- og enskumælandi ferðamenn hér heima. Hún starfaði líka lengi við ferðaskipulag og fleira á ferðaskrifstofum.
Ása María stundaði nám í Þýskalandi, Austurríki og á Íslandi, en hefur ferðast til margra landa og dvalið víða í styttri tíma við nám, störf og leik. Þýskumælandi lönd eru henni einkar hugleikin þótt hún hafi tekið miklu ástfóstri við eyjuna Madeira, Slóveníu, Tékkland og Ítalíu svo dæmi séu tekin. Ferðalög auka víðsýni og skilning.