Hotel Coral Suites and Spa

Coral Suites and Spa er mjög gott, fallega hannað íbúðahótel, aðeins fyrir 16 ára og eldri, á frábærum stað í miðju Amerísku strandarinnar. Veitingastaðir og verslanir í næsta nágrenni og 400 metrar á ströndina. 
Í hótelinu er 191 björt og falleg vistarvera. Hægt er að velja um 40 fermetra Junior svítur eða 80 fermetra svítur með einu svefnherbergi. Allar svítur eru ætlaðar tveimur einstaklingum. Innréttingar eru stílhreinar og nútímalegar, með áherslu á bjarta og líflega liti. Parkett er á gólfum. Nútímaþægindi eru öll til staðar, eins og loftkæling, sími, flatskjársjónvarp með gervihnattarásum og þráðlaus nettenging. Hægt er að leigja öryggishólf. Í eldhúskrók er allt til alls, ísskápur, hellur, örbylgjuofn, kaffivél, hraðsuðuketill og brauðrist, auk allra nauðsynlegra áhalda. Á baðherbergjum er sturta, hárþurrka, baðsloppar, inniskór og baðvörur. Við allar svítur eru svalir, búnar fallegum húsgögnum. 

Morgunverðarhlaðborð er í veitingasal og þar er líka úrval rétta í boði í hádegi og á kvöldin. Við sundlaugina er snarl- og drykkjabar. Það er tilvalið að tylla sér niður á setustofubarnum, sem er stílhreinn og fallegur, áður en haldið er á næsta veitingastað eða í lok dags áður en gengið er til hvílu.

Í hótelgarðinum eru tvær sundlaugar og kringum þær sólbekkir og sólhlífar. Á þakveröndinni á 6. hæð er sólbaðsaðstaða og þó að engin sé þar sundlaugin er ekki amalegt að liggja þar og njóta útsýnisins yfir Atlantshafið.  Heilsulind er í hótelinu, með líkamsræktaraðstöðu, heitum potti og nuddpotti, hvíldarhreiðri og gufubaði. Þar eru ýmsar tegundir líkamsmeðferða í boði.

Gestamóttakan er opin allan sólarhringinn. Þar er sælkeraverslun með alls kyns góðgæti. Þar er einnig töskugeymsla, bílaleiga og boðið er upp á gjaldeyrisskipti.

Coral Suites and Spa er gullfallegt hótel þar sem hægt er að njóta þess til fulls að slaka á og hlaða batteríin. Hótelið er aðeins ætlað eldri en 16 ára og því upplagt að njóta rólegheitanna en geta þó með nokkurra mínútna göngutúr komist niður á strönd, í verslanir, veitingastaði og iðandi mannlíf. Stutt er í allar gerðir afþreyinga og 2-3 kílómetrar á næsta golfvöll.

FJARLÆGÐIR

 • Frá flugvelli: 18 km
 • Frá miðbæ: 10 min gangur í verslanir og veitingahús
 • Frá strönd: 400 m

AÐSTAÐA

 • Þráðlaust net
 • Sundlaug
 • Líkamsrækt
 • Heilsulind
 • Gestamóttaka
 • Bar
 • Veitingastaður


VISTARVERUR

 • Íbúðir
 • Ísskápur
 • Kaffivél
 • Loftkæling
 • Öryggishólf: Hægt að leigja
 • Sjónvarp
 • Hárþurrka

FÆÐI

 • Hálft fæði