Glæsileg vikuferð til Tenerife

28. september – 5. október 2024   8 dagar 7 nætur
Fararstjóri:
Elín Guðrún Sigurðardóttir

Kanaríeyjar tilheyra Spáni. Tenerife er stærst eyjanna 7, sem eru rétt fyrir utan strendur Vestur-Afríku. Tungumálið er spænska (kanareysk spænska) og gjaldmiðillinn evra (€). Tenerife er 2.034 km² (Ísland er 103.000 km²). Tenerifebúar voru 966.354 í febrúar 2023, þar af búa um 205.000 í höfuðborginni Santa Cruz. Árlega koma um 5-6 milljón ferðamenn til Tenerife

Tenerife hefur laðað að ferðamenn síðan 1890. Hlýtt veðurfar allt árið um kring gerir það að verkum að eyjan er sérstaklega eftirsótt yfir vetrartímann, hvort sem fólk vill slaka á í sólinni, versla, stunda útivist eða fara á tapasnámskeið. Fjölbreytt náttúran gerir eyjuna að draumi ljósmyndarans og útivistarfólks.

Oftast er talað um Tenerife sem tvo hluta; norður og suður. Aðal ferðamannasvæðin (Adeje og Arona) eru á suðurhlutanum og þar er jafnframt hlýrra á veturna og fleiri sólardagar. Munurinn á veðri milli norður og suður sést greinilega á gróðrinum, þar sem suðurhlutinn er þurr en náttúran blómstrar fyrir norðan. Skýringin á þessum mun eru fjöllin á miðri eyjunni og þá sérstaklega El Teide, sem er þriðja stærsta eldfjall heims.

AMERÍSKA-STRÖNDIN
Ströndin er á sunnanverði Tenerife er stundum kölluð „Leikvöllurinn“ á eyjunni, sökum fjölbreytta afþreyingarmöguleika. Hvort sem þú vilt slappa af eða sletta ærlega úr klaufunum (nú eða sitt lítið af hvoru), þá er Ameríska ströndin fullkomin. Úrval af veitingastöðum, verslunum, börum og næturklúbbum. Fyrir þá sem þurfa smá hreyfingu er hægt að panta sjóskíði, fara í tennis, keilu eða golf á eyjunni. Hægt er að fá upplýsingar um þjónustu og afþreyingu á hótelinu sem og hjá fararstjóra.

Öryggisfánar
Flestar baðstrendur nota fána til að gefa til kynna hversu öruggt er að fara í sjóinn. Hér fyrir neðan er lýsing á litum fánanna og hvað þeir tákna. Stundum eru lífverðir á vakt, en ekki á öllum ströndunum.

  • Rauður fáni: Bannað að fara í sjóinn. Getur varðað sektum.
  • Gulur fáni: Sýnið aðgát.
  • Grænn fáni: Öruggt að fara í sjóinn, gott veður.

Best er að kaupa vatn í stórum brúsum. Kranavatn er yfirleitt ekki drukkið nema gegnum þar til gerða síu en það er allt í lagi að bursta tennur með því. Það er líka í góðu lagi að drekka klaka í drykkjum á veitingastöðum. Rafmagnið er eins og á Íslandi og því er hægt að stinga síma og tölvu beint í samband.

Litlar eðlur eru í flestum görðum. Þær eru hræddar við fólk en halda flugum og skordýrum í burtu. Það er líka hægt að gefa þeim að borða.

Ferðalýsing:

Dagur 1 –  28. september 2024  laugardagur    Ísland – Tenerife
Flogið til Tenerife með Icelandair flug FI580 og er brottför frá Keflavík kl. 10:00 áætluð lending á Tenerife kl. 16:25 að staðartíma. Flugvöllurinn sem er lent á þegar komið er frá Íslandi er Tenerife Sur (TFS). Hann kallast líka Reina Sofia (Sofia drottning). Akstur frá flugvelli að hóteli tekur u.þ.b. 20 – 30 mínútur. Gist er í 7 nætur á 4* CORAL SUITES AND SPA, PLAYA DE LAS AMÉRICAS. Hótelið er vel staðsett rétt við Laugaveginn og aðeins 400 m niður á strönd. Sjá staðsetninguna hér

Dagur 2 –  29. september 2024  sunnudagur    Frjáls dagur og slökun
Nú er um að gera að nýta sér allt sem hótelið býður upp á og má þar m.a. nefna að í  hótelgarðinum eru tvær sundlaugar og kringum þær sólbekkir og sólhlífar. Á þakveröndinni á 6. hæð er sólbaðsaðstaða og þó að engin sé þar sundlaugin er ekki amalegt að liggja þar og njóta útsýnisins yfir Atlantshafið. Heilsulind er í hótelinu, með líkamsræktaraðstöðu, heitum potti og nuddpotti, hvíldarhreiðri og gufubaði. Þar eru ýmsar tegundir líkamsmeðferða í boði. Það er margt hægt að gera á Tenerife sjá video hér

Dagur 3 –  30. september 2024  mánudagur     Frjáls dagur og slökun

Það er gaman að benda á ferð til La Comera þar sem hægt er að taka ferju yfir og er hægt að mæla með Fred Olsen  og er mjög skemmtileg dagsferð  Á eyjunni er t.d. syðsti regnskógur Evrópu og er um að gera að hafa fararstjóra með í för.  Kynnið ykkur þessa ferð.


Dagur 4 –  1. október 2024  þriðjudagur   Frjáls dagur og tilvalið að nota í slökun
Nú er kjörið tækifæri til að njóta sín á eigin vegum í borginni, fara í búðir eða söfn, flatmaga niðri á strönd eða bara taka því rólega við sundlaugina á hótelinu.

Dagur 5 –  2. október 2024  miðvikudagur   Dagsferð um Tenerife

Eftir morgunverð verður ekið um eyjuna með íslenskum fararstjóra. Heimsækjum við m.a. San Cristóbal de La Laguna sem var áður höfuðborg Tenerife, borðum hádegisverð o.fl.

Dagur  6 –. 3. október 2024  fimmtudagur   Slökun, búðir eða hvað sem er
Laugavegurinn
Svæðið næst Vistas-ströndinni er þar sem Parque Santiago-hótelin eru. Þar er einnig verslunargatan Avenida de Las Américas eða „Laugavegurinn,“ með marmaralögðum gangstéttum (sem eru skúraðar snemma á morgnana), og Safari-verslunarmiðstöðin. Á efri hæðinni í Safari eru nokkrir góðir veitingastaðir, meðal annars ítalski staðurinn Bianco. Hinumegin við götuna er Hard Rock Cafe. Verslanir á svæðinu eru meðal annars Zara, Stradivarius og Bershka.

Dagur  7 – 4. október 2024 föstudagur  Frjáls dagur – Hittingur á barnum fyrir kvöldverð.
Þetta er síðasti dagurinn í ferðinni,  frjáls dagur og reynum við að hittast allar á barnum á hótelinu og skála fyrir velheppnaðri hvíldarferð húsmæðra. Nú er um að gera að njóta dagsins, rölta í verslanir eða liggja í sólbaði.

Dagur  8 – 5. október 2024 laugardagur           Tenerife – Keflavík
Nú er komið að heimferð og verður lagt af stað frá Hóteli út á flugvöll kl. 14:00. Brottför frá Tenerife kl.17:25 með Icelandair flugnr. FI581 í beinu flugi til Íslands. Áætluð lending í Keflavík er kl. 21:55 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga ef með þarf þegar komið er á staðinn.

Verð:
Í tvíbýli á mann með útsýni í garðinn sem er niðurgreitt er  kr. 161.900

Í tvíbýli á mann með sjávarsýn sem er niðurgreitt er  kr. 174.900
Í einbýli á mann sem er niðurgreitt er kr. 194.450

Staðfestingargjald er kr. 40.000 og er óafturkræft

Möguleiki er að framlengja ferðina í samráði við ferðaskrifstofuna
Lágmarksþáttaka eru 30 manns

Innifalið í verði er:

  • Flug, skattar, 23 kg taska og handfarangur 10 kg.
  • Gisting í 7 nætur á Coral Suite and Spa með hálfu fæði
  • Dagsferð um Tenerife (dagur 5)
  • Akstur til og frá flugvelli erlendis
  • Íslensk fararstjórn

Ekki innifalið í verði er:

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé fyrir bílstjóra og staðarleiðsögumenn
  • Forfalla- og ferðatryggingar

Athugið sérstaklega:
Í ferðum á vegum Húsmæðraorlofsins þurfa konur að vera færar um að geta komist leiðar sinnar óstuddar, því alltaf þarf að ganga eitthvað í skoðunarferðum en gönguleiðir eru oftast ekki mikið á fótinn né mjög langar.

Lokagreiðsla er síðan 6-8 vikum fyrir brottför
Hægt er að nota vildarpunkta  upp í staðfestingargjald eða lokagreiðslu.

Gjafabréf.  Inneignir hjá Icelandair eða stéttafélags gjafabréf er hægt að nota upp í ferðina.

Mikilvægar upplýsingar:  

  • Munið eftir gildum vegabréfum í utanlandsferðum.  
  • Forfallatrygging er ekki innifalin í staðfestingargjaldi.  
  • Ferða- og forfallatryggingar eru á eigin ábyrgð. 
  • Skatta- og gengisbreytingar gætu breytt auglýstu verði. 
  • Orlofsnefnd húsmæðra ber ekki ábyrgð á töfum eða breytingum á
    ferðaáætlun vegna ófyrirsjáanlegra  aðstæðna.
    Vísað er í almenna ferðskilmála á heimasíðu ferðaskrifstofunnar. 
  • Hafið ætíð evrópskt sjúkratryggingakort „E-111“ frá Sjúkratryggingum
    Íslands  meðferðis í utanlandsferðir.  Smellið hér til að sækja um kortið.
  • Konur sem búa í öðru sveitarfélagi geta farið í ferðir, en verða  sjálfar að sækja
    um niðurgreiðslu til orlofsnefndar í sínu umdæmi.  
  • Staðfestingargjald vegna ferða þarf að greiða innan viku eftir að þátttaka hefur
    verið samþykkt. Verði gjaldið ekki greitt innan þess tíma fellur pöntunin niður.
    Gengið skal frá fullnaðargreiðslu ferðar á viðkomandi ferðaskrifstofu, nema
    annað sé tekið fram. 

    Vinsamlegast boðið forföll eins skjótt og auðið er. Endurgreiðslur eru skv.
    almennum ferðaskilmálum á heimsíðu Icelandair VITA

Hægt er að sækja um ferðina með því að smella á hér