Fyrsta ferð ársins 2022 var farin til Toskana 28. ágúst 2022

Fyrsta ferð ársins 2022 hjá orlofsnefnd húsmæðra í Gullbringu og Kjósarsýslu fyrir sveitarfélögin Garðabæ, Kjós, Mosfellsbæ og Seltjarnarnes var farin 28. ágúst til Toskana ásamt siglingu meðfram þorpunum fimm Cinque Terre.  Þetta var átta daga ferð og tóku 40 konur þátt í ferðinni ásamt fararstjóra sem var Ágústa Sigrún Ágústdóttir. 
Flogið var til Verona og ekið síðan til Lucca hin falda demant Toskana héraðsins þar sem gist var í 7 nætur.  Farið var í skoðunarferð um Lucca, ekið til Bagni di Lucca sem var einn vinsælasti ferðamannastaður ríka og fræga fólksins á 18. og 19. öld.  Á leiðinni voru skoðaðar nokkrar gamlar brýr m.a. Djöflabrúin eins og hún er oftast kölluð fékk þó um 1500 “kristilega” nafnið sitt Magdalenu brúin vegna styttu af Maríu Magdalenu sem stóð skammt frá á austurbakkanum. Fjögurra rétta kvöldverður var snæddur á Hotel La Corona sem íslenskur maður að nafni Pálmi rekur.
Siglt var frá La Spezia meðfram strandlengjunni Cinque Terre sem heitir eftir fimm þorpum Monterosso, Vernazza, Corniglia, Manarola og Riomaggiore sem virðast hanga utan í bröttum hlíðunum við ströndina. Farið var í land í Monterosso, Vernassa og Porto Venero.  Einstaklega fallegur dagur.  Farið í vínsmökkun enda Toskana vínin fræg fyrir gæði.  Á vínbúgarðinum Fattoria del Teso tók á móti okkur einstaklega glaðleg kona sem var vínbóndinn ásamt annarri konu sem var vínsérfræðingurinn.  Vínin smökkuðust mjög vel svo ég tali nú ekki um það sem borið var á borð með vínunum ítalskar pylsur, skinkur og ostar.
Konur nutu frjálsa dagsins og brugðu sumar sér til Flórens, aðrar til Lucca og sumar slökuðu bara á. Farið var til Pisa þar sem kirkjan, kapellan og kirkjugarðurinn var skoðaður og gengu rúmur helmingur kvennanna upp í skakka turninn sem byggður var um 1173 og telur 294 þrep. Ferðinni lauk með Drottningakvöldverði 4 réttir ásamt drykkjum á dásamlegu sveitabýli Borgo della Limonaia og var þjónað til borðs af allri fjölskyldunni.  Glaðar og samhentar orlofskonur héldu svo heim á leið eftir dásamlega skemmtilega ferð með góðum fararstjóra.

Maður einnar konunnar í ferðinni Sigurbjörn Skarphéðinsson orti þessa vísu til okkar orlofskvenna í Toskana

Í ferðalagið flugu þær,
fóru margar saman.
Toscana heimsókn tímabær,
töfrandi allt og gaman.
Engu verður eftir séð,
Allar tóku brosið með.
Er þær aftur halda heim,
hamingjan mun fylgja þeim .

Njótið vel.

———————————-

Gleðilega páska!

Í ár mun orlofsnefndin bjóða upp á þrjár ferðir og allar mjög spennandi.
Fyrsta ferðin verður til Ítalíu Toskana, þá er ferð um Alpafjöll og til Króatíu og að sjálfsögðu
verður aðventuferð til Trier í Þýskalandi.

Við hvetjum konur til að sækja um þessar frábæru ferðir og hafa allar konur rétt til að sækja um orlofsferð sem veita eða hafa veitt heimili forstöðu án launagreiðslu fyrir það starf. 

Orlofsnefnd húsmæðra í Gullbringu- og Kjós fyrir sveitarfélögin
Garðabæ, Kjós, Mosfellsbæ og Seltjarnarnes

———————————

Ný vefsíða fyrir orlofsferðir húsmæðra í Gullbringu- og Kjós fyrir sveitarfélögin Garðabæ, Kjós, Mosfellsbæ og Seltjarnarnes